Ég viðurkenni fúslega að hafa átt mjög erfitt með það þegar Vinstri græn voru stofnuð fyrir 10 árum. Hjá mér höfðu vaknað vonir um að með sameiningu vinstri flokkanna myndi verða öflugur félagshyggjuflokkur sem næði að vera sterkt mótafl við hægri risann sem manni virðist alltaf hafa ráðið ríkjum á Íslandi. Margir sem ég þekkti voru hinsvegar á þeirri skoðun að úr þeirri sameiningu yrði ekkert nema miðjumoð og mörg mikilvægustu málefnin myndu glatast. Þar fór afi minn Kolbeinn Friðbjarnarson fremstur í flokki enda einn af stofnendum Vinstri grænna á Norðausturlandi. Þegar ég minnist þessa þá sé ég alltaf fyrir mér hina sönnu en ævintýralega dramatísku mynd af gamla manninum, þar sem hann, þá orðinn alvarlega veikur af sjaldgæfum lungnasjúkdómi sem dró hann til dauða aðeins nokkrum mánuðum síðar, gekk hús úr húsi með súrefniskútinn í eftirdragi til að safna undirskriftun svo flokkurinn yrði að raunveruleika.
Hér fyrir sunnan sat ég vönkuð og vissi ekki hvað ég ætti að gera. Ég hef aldrei fylgt neinu nema eigin trú og skoðunum og það var ekkert að breytast bara vegna þessa. Á næstu árum flakkaði ég fram og til baka í skoðunum um hvor flokknum ég tilheyrði. Í raun er bara gott eitt um það að segja enda mín skoðun að enginn eigi að fylgja neinum manni eða flokki í blindni. Öll þurfum við að meta það sjálf út frá eigin tilfinningum og rökhugsun hvert við erum tilbúin að leggja traust okkar. Auk þess þurfum við alltaf að vera tilbúin að skipta um skoðun og ganga burt ef þess gerist þörf.
Fyrir tveimur árum skreið ég loks undan feldinum og skráði mig í Vinstri græn. Ég hef ekki alltaf verið sammál VG að öllu leiti enda tel ég að það sé farstæðukennt að stórir hópar fólks geti allir haft sömu skoðanir á öllu og held því fram slíkt beri annaðhvort vott um heilaþvott eða þrælslund. En ég á hinsvegar eindregna samleið með VG í þeim málum sem ég tel skipta höfuðmáli og á meðan ég lá undir feldi fannst mér sú samleið sífellt aukast á meðan hinn flokkurinn hafði sífellt fjarlægst mig meir og meir.
Allt frá því að ég man eftir mér hef ég verið fylgjandi félagslegum jöfnuði. Öðruvísi samfélag og hugsanaháttur er mér í raun óskiljanlegt fyrirbæri. Þeir sem þekkja mig vita að ég hef aldrei átt erfitt með að deila því sem ég get og get bæði gefið hluti, vinnu, tíma, ást og umhyggju án þess að krefjast neins á móti nema virðingar og vingjarnlegheita. Fyrir mér eru það mestu verðmætin og í draumum mínum sé ég fyrir mér samfélagsgerð þar sem hvatinn til stórverka er ekki fólginn í efnislegum gæðum heldur annarskonar viðurkenningu t.d. hylli almennings eða einfaldlega vitneskjunnar og stoltsins yfir að maður hafi gert gott og merkilegt verk. Hið efnislega ætti hinsvegar að vera eðlilegur hluti í lífi hverrar manneskju, eitthvað sem við getum öll gengið að vísu og deilt með okkur.
Fyrir þessa drauma hef ég oft á tíðum verið kölluð barnaleg og draumar mínir útópískir. Á síðustu árum hefur það meira að segja verið svo að ég hef verið kölluð illmenni fyrir að vilja ekki verðlauna dugnað með ofurlaunum eða heimsk fyrir að vilja eyða hvatanum úr manninum. Oft hafa þessi orð verið mjög hörð og óvægin. Reynt hefur verið að yfirfæra skoðanir mínar upp á það að ég sé á móti frelsi einstaklingsins og jafnvel reynt að halda því fram að allir sem hafi slíkar skoðanir styðji ofbeldi, kúgun og morð í þágu málstaðsins. Slíkar upphrópanir eru auðvitað hræðilegur útúrsnúningur á einhverju sem ég tel vera fallegt og gott og þau hafa sært mig dýpra en nokkuð annað í lífi mínu. Samt hef ég aldrei skipt um skoðun, sjálfsagt vegna þess að fyrir mér er þetta ekki spurning um að taka upp vinsælar skoðanir til að falla inn í hópinn, heldur spurning um að vera trú eðli sínu og kjarna. Mér er það bara lífsins ómögulegt að þykjast vera eitthvað annað en ég er, hvorki í þessu máli né öðrum.
Auk félagslegs jafnaðar hafa mannréttindi alltaf verið mér mikilvæg. Enda auðvelt að leggja samansem merki þarna á milli. Samfélag þar sem er efnahagslegur jöfnuður en fólk er kúgað vegna skoðanna sinna, kyns, trúar, kynáttar eða einhvers annars er ekki ásættanlegt. Hið efnislega er bara eitt af mörgum þörfum okkar og til að alvöru jöfnuður sé í samfélaginu þá verður að gæta réttar okkar allra og frelsis okkar til að vera við sjálf. Það er ekki aðeins kyn okkar, kynþáttur eða trú sem gera okkur mismunandi, heldur svo margskonar aðrir hlutir s.s. smekkur á menningu, talsmáti, aldur og áhugamál og oftar en ekki eru það þeir hlutir sem við erum frekar flokkuð eftir. Ég sjálf hugsa t.d. yfirleitt ekki um mig sem hvíta konu, heldur frekar sem félagshyggjumanneskju, tölvunörd eða ljóðunnanda. En um leið og það er svo margt sem greinir okkur í sundur - þá er enn meira sem sameinar okkur. Sem borgarar í samfélagi ber okkur ber því skylda að standa saman og hugsa vel um hvort annað en ekki vera endalaust að keppa og berjast um hluti sem engu máli skipta.
Slíktar hugsjónir um félagslegan jöfnuð, mannréttindi og frelsi eru einmitt leiðarljós Vinstri grænna.
Núna eftir efnahagshrunið, eftir að hvert spillingarmálið á fætur öðru er dregið í dagsljósið og siðleysi stjórnmálamanna úr flestum flokkum birtist manni kristaltært, þá bætast við enn ein rökin fyrir því að styðja Vinstri græna. Þrátt fyrir að vera kallaðir afturhaldskommatittir og öðrum ljótum nöfnum þá hafa talsmenn VG aldrei gefist upp á að benda á óvinsæl atriði sem enginn vildi hlusta á og varað við áhrifum þenslunnar. Það er því ekki aðeins svo að Vinstri grænir beri ekki ábyrgð á hruninu heldur vöruðu þeir beinlínis við því. Að lokum virðist vera að VG sé eini flokkurinn sem ekki var tilbúinn að selja stórfyrirtækjum sálu sína, hvorki með styrkjum til flokksins eða einstaklinga.
VG er því jarðtengdur og óspilltur flokkur sem leggur höfuðáherslur á félagslegan jöfnuð, mannréttindi og gagnsæi.
Fyrir mig er því enginn annar kostur í stöðunni en að setja X við V.
Kjörfundur hafinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Bloggar | 25.4.2009 | 11:34 (breytt kl. 12:03) | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér vel skrifaðan og einlægan pistil.
Gleðilegan uppskerudag.
Hjörleifur Guttormsson, 25.4.2009 kl. 12:06
Amen á eftir efninu.
Þór Jóhannesson, 25.4.2009 kl. 19:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.