Hinn alvitri

 

Mér finnst sorglegt að fylgjast með umræðum um þetta mál.

Allt úir og grúir af einhliða siðapredikurum sem þykjast geta séð inn í hug og hjarta hvers einasta mótmælenda og sjá þar ekkert nema djöfulleg áform og illmennsku.

Hvernig þeir telja sig geta séð þetta og vitað er mér illskiljanlegt. Ég sem manneskja veit að við höfum hvert og eitt okkar hug, hvert og eitt okkar tilfinningar, hvert og eitt okkar hjarta og sál.

Ég sem manneskja veit að ég get ekki vitað hvað hrærist í hug og hjarta náunga míns.

Ég sem manneskja leyfi mér því ekki að fordæma eða halda því fram að fólk ljúgi þegar það segir sína upplifun og tilfinningar.

Hvert og eitt okkar hefur sinn rétt.

Fyrir mér er ímyndin um fólk sem berst fyrir réttlæti verðmæt. Móðir mín kenndi mér að ég skyldi aldrei þegja þegar ég yrði vör við óréttlæti og ég trúi því að ekkert sé nauðsynlegra en að kenna börnum okkar að þau verði að berjast fyrir réttlætinu.

Sú barátta getur komið í mörgum myndum og stundum verður fólki á eða í fljótfærni og bræði svarar óréttlæti með óréttlæti. Þegar ég var unglingur var drengur í skólanum mínum sem átti enga vini og allir gerðu grín að honum. Í dag kallast þetta einelti. Eins og í íslensku samfélagi síðustu ára þá þögðu meira að segja þeir sem vissu að þetta var ekki réttlátt, líka ég. En dag einn sat ég í góðra vina hópi og einn vinur minn fer að segja frá því að þeir strákarnir hafi tekið sig til fyrr um daginn, umkringt þennan dreng í sturtuklefanum og migið svo á hann. Ég sá svart... eða rautt. Aldrei hafði ég vitað annað eins ógeð og það frá drengjum sem ég kallaði vini mína. Ég man það enn að ég skalf en að öðru leiti varð hugur minn tómur þar sem ég kreppti hnefann og kýldi besta vin minn í magann. Undrandi og skelkaður horfði hann á mig. Ég gat ekkert sagt en gekk í burtu.

Brást ég rétt við?

Nei! Ég svaraði óréttlæti með óréttlæti og ég hef engan rétt til þess.

En eiga mögulegir áhorfendur eða fólk út í bæ sem var ekki á staðnum rétt á að dæma það sem ég gerði sem djöfulegt illviljaverk? Það sá ekki inn í huga minn, það fann ekki tilfinningar mínar. Hvernig geta þau úthrópað mig og dæmt.

Manneskjan er ekki fullkomin. Langt því frá og satt best að segja held ég að það sé bara gott mál. Hið áhugaverða felst of í breyskleika okkar og ófullkomnun. En þrátt fyrir ófullkomleika okkar þá höfum við fullan rétt á að krefjast réttlætis. Við þurfum ekki að vera fullkomin til þess að sjá mun á réttu og röngu. Það er ekki bara réttur okkar, það er skylda okkar.

Við sem einstaklingar getum hinsvegar ekki borið ábyrgð á öllum öðrum. Við getum reynt eftir mætti að gera góða hluti og kennt börnum okkar að vera réttlát, víðsýn og heiðarleg. Við getum talað varlega en gætt þess þó að þegja ekki þegar þörf er á. Við getum beðið fólk um að haga sér vel, við getum sett reglur, við getum sýnt gott fordæmi. En þegar upp er staðið þá verðum við fyrst og fremst að bera ábyrgð á okkur sjálfum.

Þegar hópur fólks, með mismunandi hug, tilfinningar, hjarta og sál kemur saman til að mótmæla óréttlæti þá getur enginn sagt hvað hver og einn þeirra er að hugsa. Það getur enginn sagt hvernig þeim líður.

Og það getur enginn sagt hvað hver og einn þeirra gerði. Nema hann hafi verið vitni að því.

---

Í dag stigu fram, undir nafni, þrír mótmælendur sem voru við Hótel Borg á gamlársdag. Þau segjast ekki hafa valdið neinum skaða og ekki hafa ætlað sér það. Þau biðjast afsökunar á að hlutirnir hafi farið öðruvísi en lagt var upp með og segjast vera tilbúnin að bera ábyrgð þrátt fyrir að eiga enga beina sök.

Með þessu sýna þau heiðvirða og ábyrga afstöðu til atburðanna á gamlárskvölds. Þau mættu ekki í mótmælin til neins annars en að láta heyra í sér. Réttlætiskennd þeirra sagði þeim að þau mættu ekki þegja. Sem réttsýnt fólk þá unnu þau heldur engan skaða.  En sem réttsýnt fólk kunn þau líka að horfa til baka og finnast leitt að þarna hafi einhver valdið skaða, jafnvel þótt ábyrgðin sé ekki þeirra.

---

Út um allan bæ er hinsveg verið að úthúða þessu hugrökku þremenningum, af fólki sem þykist geta séð inn í hug þeirra og hjörtu og sér þar ekkert nema djöfuleg áform. Fólk sem segir að þau ljúgi, þau hafi víst sýnt ofbedli og framið skemmdarverk.

Út í bæ er líka maður sem líkir þeim við nauðgara...


mbl.is Bjóðast til að greiða skaða Stöðvar 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband