Færsluflokkur: Bloggar

Útrásarvíkingar


Íslensk hugmynd?

Ætli þau hafi fengið hugmyndina úr þessum (íslenska) leik:

http://www.icegamer.net/?p=1

Í leiknum geta glöggir heyrt Brown röfla eitthvað um Icesave og hryðjuverkamenn Tounge


mbl.is Hæðst að Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mig dreymdi draum

Mig dreymdi draum.

Mig dreymdi heim fullan af ást, fullan af von.

Heim án samkeppni og baráttu, heim þar sem fólk stóð saman.

Í þessum heimi voru engir peningar, engin græðgi, engin mismunun. Allir stóðu saman og hjálpuðust að. Allir gáfu eftir getu og fengu eftir þörfum.  Heimur án efnahagssveifla, heimur án fátæktar, heimur án hruns.

 

Mig dreymdi  draum.

Mig dreymdi heim fullan af ást, fullan af von.

Heim án ójafnaðar og stéttaskiptingar, heim þar sem fólk stóð saman.

Í þessum heimi voru verk fólks metin að jöfnu. Allir höfðu sitt hlutverk sem öll skiptu jafn miklu máli í heildarpúslinu. Heimur þar sem framkvæmdastjórinn, listamaðurinn og  fiskverkamaðurinn voru öll jafn mikilvæg, öll jafn mikils metin.

 

Mig dreymdi  draum.

Mig dreymdi heim fullan af ást, fullan af von.

Heim án stríðs og eyðileggingar, heim þar sem fólk stóð saman.

Í þessum heimi var ágreiningur leystur án ofbeldis. Undir engum kringumstæðum þótti eðlilegt að drepa, níða, særa eða pynta. Heimur þar sem aldrei var ásættanlegt að valta yfir og ræna þá sem ekki gátu varið sig.

 

Mig dreymdi  draum.

Mig dreymdi heim fullan af ást, fullan af von.

Heim án umhverfisspjalla og mengunar, heim þar sem fólk stóð saman.

Í þessum heimi var hugsað til framtíðar en ekki gengið óheft að auðlyndum jarðar. Framtíð jarðarinnar og lífsskilyrðum afkomenda okkar var ekki fórnað fyrir skammtímahugsun og græðgi.  Heimur þar sem mannkyn, dýr og náttúra lifðu saman í sátt og samlyndi.

 

Mig dreymdi  draum.

Mig dreymdi heim svo óþægilega ólíkan okkar.

engill2


mbl.is Kröfugangan lögð af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ég ætla að kjósa VG

Ég viðurkenni fúslega að hafa átt mjög erfitt með það þegar Vinstri græn voru stofnuð fyrir 10 árum. Hjá mér höfðu vaknað vonir um að með sameiningu vinstri flokkanna myndi verða öflugur félagshyggjuflokkur sem næði að vera sterkt mótafl við hægri risann sem manni virðist alltaf hafa ráðið ríkjum á Íslandi. Margir sem ég þekkti voru hinsvegar á þeirri skoðun að úr þeirri sameiningu yrði ekkert nema miðjumoð og mörg mikilvægustu málefnin myndu glatast. Þar fór afi minn Kolbeinn Friðbjarnarson fremstur í flokki enda einn af stofnendum Vinstri grænna á Norðausturlandi. Þegar ég minnist þessa þá sé ég alltaf fyrir mér hina sönnu en ævintýralega dramatísku mynd af gamla manninum, þar sem hann, þá orðinn alvarlega veikur af sjaldgæfum lungnasjúkdómi sem dró hann til dauða aðeins nokkrum mánuðum síðar, gekk hús úr húsi með súrefniskútinn í eftirdragi til að safna undirskriftun svo flokkurinn yrði að raunveruleika.

Hér fyrir sunnan sat ég vönkuð og vissi ekki hvað ég ætti að gera. Ég hef aldrei fylgt neinu nema eigin trú og skoðunum og það var ekkert að breytast bara vegna þessa. Á næstu árum flakkaði ég fram og til baka í skoðunum um hvor flokknum ég tilheyrði. Í raun er bara gott eitt um það að segja enda mín skoðun að enginn eigi að fylgja neinum manni eða flokki  í blindni. Öll þurfum við að meta það sjálf út frá eigin tilfinningum og rökhugsun hvert við erum tilbúin að leggja traust okkar. Auk þess þurfum við alltaf að vera tilbúin að skipta um skoðun og ganga burt ef þess gerist þörf.

Fyrir tveimur árum skreið ég loks undan feldinum og skráði mig í Vinstri græn. Ég hef ekki alltaf verið sammál VG að öllu leiti enda tel ég að það sé farstæðukennt að stórir hópar fólks geti allir haft sömu skoðanir á öllu og held því fram slíkt beri annaðhvort vott um heilaþvott eða þrælslund. En ég á hinsvegar eindregna samleið með VG í þeim málum sem ég tel skipta höfuðmáli og á meðan ég lá undir feldi fannst mér sú samleið sífellt aukast á meðan hinn flokkurinn hafði sífellt fjarlægst mig meir og meir.

Allt frá því að ég man eftir mér hef ég verið fylgjandi félagslegum jöfnuði. Öðruvísi samfélag og hugsanaháttur er mér í raun óskiljanlegt fyrirbæri. Þeir sem þekkja mig vita að ég hef aldrei átt erfitt með að deila því sem ég get og get bæði gefið hluti, vinnu, tíma, ást og umhyggju án þess að krefjast neins á móti nema virðingar og vingjarnlegheita. Fyrir mér eru það mestu verðmætin og í draumum mínum sé ég fyrir mér samfélagsgerð þar sem hvatinn til stórverka er ekki fólginn í efnislegum gæðum heldur annarskonar viðurkenningu t.d. hylli almennings eða einfaldlega vitneskjunnar og stoltsins yfir að maður hafi gert gott og merkilegt verk. Hið efnislega ætti hinsvegar að vera eðlilegur hluti í lífi hverrar manneskju, eitthvað sem við getum öll gengið að vísu og deilt með okkur.

Fyrir þessa drauma hef ég oft á tíðum verið kölluð barnaleg og draumar mínir útópískir. Á síðustu árum hefur það meira að segja verið svo að ég hef verið kölluð illmenni fyrir að vilja ekki verðlauna dugnað með ofurlaunum eða heimsk fyrir að vilja eyða hvatanum úr manninum. Oft hafa þessi orð verið mjög hörð og óvægin. Reynt hefur verið að yfirfæra skoðanir mínar upp á það að ég sé á móti frelsi einstaklingsins og jafnvel reynt að halda því fram að allir sem hafi slíkar skoðanir styðji ofbeldi, kúgun og morð í þágu málstaðsins. Slíkar upphrópanir eru auðvitað hræðilegur útúrsnúningur á einhverju sem ég tel vera fallegt og gott og þau hafa sært mig dýpra en nokkuð annað í lífi mínu. Samt hef ég aldrei skipt um skoðun, sjálfsagt vegna þess að fyrir mér er þetta ekki spurning um að taka upp vinsælar skoðanir til að falla inn í hópinn, heldur spurning um að vera trú eðli sínu og kjarna. Mér er það bara lífsins ómögulegt að þykjast vera eitthvað annað en ég er, hvorki í þessu máli né öðrum.

Auk félagslegs jafnaðar hafa mannréttindi alltaf verið mér mikilvæg. Enda auðvelt að leggja samansem merki þarna á milli. Samfélag þar sem er efnahagslegur jöfnuður en fólk er kúgað vegna skoðanna sinna, kyns, trúar, kynáttar eða einhvers annars er ekki ásættanlegt. Hið efnislega er bara eitt af mörgum þörfum okkar og til að alvöru jöfnuður sé í samfélaginu þá verður að gæta réttar okkar allra og frelsis okkar til að vera við sjálf. Það er ekki aðeins kyn okkar, kynþáttur eða trú sem gera okkur mismunandi, heldur svo margskonar aðrir hlutir s.s.  smekkur á menningu, talsmáti, aldur og áhugamál og oftar en ekki eru það þeir hlutir sem við erum frekar flokkuð eftir.  Ég sjálf hugsa t.d. yfirleitt ekki um mig sem hvíta konu, heldur frekar sem félagshyggjumanneskju, tölvunörd eða ljóðunnanda. En um leið og það er svo margt sem greinir okkur í sundur - þá er enn meira sem sameinar okkur. Sem borgarar í samfélagi ber okkur ber því skylda að standa saman og hugsa vel um hvort annað en ekki vera endalaust að keppa og berjast um hluti sem engu máli skipta.

Slíktar hugsjónir um félagslegan jöfnuð, mannréttindi og frelsi eru einmitt leiðarljós Vinstri grænna.

Núna eftir efnahagshrunið, eftir að hvert spillingarmálið á fætur öðru er dregið í dagsljósið og siðleysi stjórnmálamanna úr flestum flokkum birtist manni kristaltært, þá bætast við enn ein rökin fyrir því að styðja Vinstri græna. Þrátt fyrir að vera kallaðir afturhaldskommatittir og öðrum ljótum nöfnum þá hafa talsmenn VG aldrei gefist upp á að benda á óvinsæl  atriði sem enginn vildi hlusta á og varað við áhrifum þenslunnar. Það er því ekki aðeins svo að Vinstri grænir beri ekki ábyrgð á hruninu heldur vöruðu þeir beinlínis við því.  Að lokum virðist vera að VG sé eini flokkurinn sem ekki var tilbúinn að selja stórfyrirtækjum sálu sína, hvorki með styrkjum til flokksins eða einstaklinga.

VG er því jarðtengdur og óspilltur flokkur sem leggur höfuðáherslur á félagslegan jöfnuð, mannréttindi og gagnsæi.

Fyrir mig er því enginn annar kostur í stöðunni en að setja X við V.


mbl.is Kjörfundur hafinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða bygging skiptir mestu máli? (1)


2 ræðupúlt á sama stað og tíma ?

Hvað í andskotanum er verið að reyna að gera?

Koma af stað óeirðum?

Hvað heldur fólk að gerist þegar 2 ræðumenn fara að tala þarna yfir á sama tíma og skipuleggjendur annars þeirra eru með það eina markmið að reyna að skemma fyrir hinum?

Er "friðar"sinninn virkilega búinn að fá leyfi fyrir sínum pall?

Ef svo... hver veitir það leyfi? Er það borgaryfirfvöld eða lögregla -því ef það er komið leyfi þá er það mjög illa ígrúndað.

Ef hann er ekki kominn með leyfi - hvað þá?

Tilgangurinn er augljóslega að tvístra og skemma.

Ég mun hinsvegar ekki láta þetta stoppa mig frá því að mæta á Austurvöll í friðsöm mótmæli og mæli með því að fólk fjölmenni aldrei sem fyrr til að sýna samstöðu.


mbl.is Nýjar raddir boða fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn alvitri

 

Mér finnst sorglegt að fylgjast með umræðum um þetta mál.

Allt úir og grúir af einhliða siðapredikurum sem þykjast geta séð inn í hug og hjarta hvers einasta mótmælenda og sjá þar ekkert nema djöfulleg áform og illmennsku.

Hvernig þeir telja sig geta séð þetta og vitað er mér illskiljanlegt. Ég sem manneskja veit að við höfum hvert og eitt okkar hug, hvert og eitt okkar tilfinningar, hvert og eitt okkar hjarta og sál.

Ég sem manneskja veit að ég get ekki vitað hvað hrærist í hug og hjarta náunga míns.

Ég sem manneskja leyfi mér því ekki að fordæma eða halda því fram að fólk ljúgi þegar það segir sína upplifun og tilfinningar.

Hvert og eitt okkar hefur sinn rétt.

Fyrir mér er ímyndin um fólk sem berst fyrir réttlæti verðmæt. Móðir mín kenndi mér að ég skyldi aldrei þegja þegar ég yrði vör við óréttlæti og ég trúi því að ekkert sé nauðsynlegra en að kenna börnum okkar að þau verði að berjast fyrir réttlætinu.

Sú barátta getur komið í mörgum myndum og stundum verður fólki á eða í fljótfærni og bræði svarar óréttlæti með óréttlæti. Þegar ég var unglingur var drengur í skólanum mínum sem átti enga vini og allir gerðu grín að honum. Í dag kallast þetta einelti. Eins og í íslensku samfélagi síðustu ára þá þögðu meira að segja þeir sem vissu að þetta var ekki réttlátt, líka ég. En dag einn sat ég í góðra vina hópi og einn vinur minn fer að segja frá því að þeir strákarnir hafi tekið sig til fyrr um daginn, umkringt þennan dreng í sturtuklefanum og migið svo á hann. Ég sá svart... eða rautt. Aldrei hafði ég vitað annað eins ógeð og það frá drengjum sem ég kallaði vini mína. Ég man það enn að ég skalf en að öðru leiti varð hugur minn tómur þar sem ég kreppti hnefann og kýldi besta vin minn í magann. Undrandi og skelkaður horfði hann á mig. Ég gat ekkert sagt en gekk í burtu.

Brást ég rétt við?

Nei! Ég svaraði óréttlæti með óréttlæti og ég hef engan rétt til þess.

En eiga mögulegir áhorfendur eða fólk út í bæ sem var ekki á staðnum rétt á að dæma það sem ég gerði sem djöfulegt illviljaverk? Það sá ekki inn í huga minn, það fann ekki tilfinningar mínar. Hvernig geta þau úthrópað mig og dæmt.

Manneskjan er ekki fullkomin. Langt því frá og satt best að segja held ég að það sé bara gott mál. Hið áhugaverða felst of í breyskleika okkar og ófullkomnun. En þrátt fyrir ófullkomleika okkar þá höfum við fullan rétt á að krefjast réttlætis. Við þurfum ekki að vera fullkomin til þess að sjá mun á réttu og röngu. Það er ekki bara réttur okkar, það er skylda okkar.

Við sem einstaklingar getum hinsvegar ekki borið ábyrgð á öllum öðrum. Við getum reynt eftir mætti að gera góða hluti og kennt börnum okkar að vera réttlát, víðsýn og heiðarleg. Við getum talað varlega en gætt þess þó að þegja ekki þegar þörf er á. Við getum beðið fólk um að haga sér vel, við getum sett reglur, við getum sýnt gott fordæmi. En þegar upp er staðið þá verðum við fyrst og fremst að bera ábyrgð á okkur sjálfum.

Þegar hópur fólks, með mismunandi hug, tilfinningar, hjarta og sál kemur saman til að mótmæla óréttlæti þá getur enginn sagt hvað hver og einn þeirra er að hugsa. Það getur enginn sagt hvernig þeim líður.

Og það getur enginn sagt hvað hver og einn þeirra gerði. Nema hann hafi verið vitni að því.

---

Í dag stigu fram, undir nafni, þrír mótmælendur sem voru við Hótel Borg á gamlársdag. Þau segjast ekki hafa valdið neinum skaða og ekki hafa ætlað sér það. Þau biðjast afsökunar á að hlutirnir hafi farið öðruvísi en lagt var upp með og segjast vera tilbúnin að bera ábyrgð þrátt fyrir að eiga enga beina sök.

Með þessu sýna þau heiðvirða og ábyrga afstöðu til atburðanna á gamlárskvölds. Þau mættu ekki í mótmælin til neins annars en að láta heyra í sér. Réttlætiskennd þeirra sagði þeim að þau mættu ekki þegja. Sem réttsýnt fólk þá unnu þau heldur engan skaða.  En sem réttsýnt fólk kunn þau líka að horfa til baka og finnast leitt að þarna hafi einhver valdið skaða, jafnvel þótt ábyrgðin sé ekki þeirra.

---

Út um allan bæ er hinsveg verið að úthúða þessu hugrökku þremenningum, af fólki sem þykist geta séð inn í hug þeirra og hjörtu og sér þar ekkert nema djöfuleg áform. Fólk sem segir að þau ljúgi, þau hafi víst sýnt ofbedli og framið skemmdarverk.

Út í bæ er líka maður sem líkir þeim við nauðgara...


mbl.is Bjóðast til að greiða skaða Stöðvar 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Robert Wade

Fyrir þá sem ekki vita þá er Robert Wade er prófessor í hagfræði við London school of economics og hefur m.a. unnið Leontief verðlaunin í hagfræði. Hann hefur fylgst með því sem hér hefur verið að gerast frá því fyrir hrun, hann skrifaði m.a. grein í Financial Times í júlí s.l. sem hét Iceland pays price for financial excess. Sú grein vakti litla lukku hérlendis eins og við er að búast, þar sem blekkingunum var viðhaldið fram á síðasta dag.
Greinina má lesa hér: http://www.borgarafundur.org/wp-content/uploads/2009/01/iceland_pays_price_for_financial_excess.pdf

Þeir Richard Portes og Friðrik Már Baldursson voru svo fengnir til að svara honum og það svar má sjá hér:

http://www.ft.com/cms/s/0/f11a86b2-4960-11dd-9a5f-000077b07658.html?nclick_check=1

Lára Hanna fjallar betur um hann á sinni frábæru bloggi sínu (eða hreinlega fréttaskýringasíðu). Hvet alla til að skoða það: http://www.larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/768830/


mbl.is Borgarafundur í Háskólabíói í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtryggingin drepur svo öll hin heimilin...

Það á semsagt enn eina ferðina bara að bjarga sumum... er þetta réttlæti?

Eyjan er með frétt um hörmulegar afleiðingar verðtryggingarinnar. 

Verðbólgan veldur því að verðtryggt 18 milljóna króna lán sem tekið var í fyrra verður verður orðið 23 milljónir eftir ár. Á sama tíma er svo mikið verðfall á húsnæðismarkaði að húsnæði sem var keypt á  rúmlega 22 milljónir verður aðeins 19 milljón kr. virði eftir ár og lánið því orðið 3 millum hærra en eignin.

Er ekki eðlileg krafa að Íbúðalánasjóður yfirtaki íslensku verðtryggðu íbúðalán heimilanna á þeirri vísitölu sem var þegar lánið var tekið?

Eða er enginn ráðherra með verðtryggð lán?


mbl.is Erlend íbúðalán til ÍLS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jörð kallar ...

... er einhver þarna úti?

Geimveran hefur ákveðið að láta rödd sína hljóma frá fleiri stöðum en úr sófanum sínum. Hinsvegar er ljóst að geimveran er að mörgu leiti ekki eins og flestir jarðarbúar og því spurning hvort einhver mun hlusta á hana. Vonandi finnst þó einhverjum áhugavert að rannsaka sýn geimverunnar á mannlífið og kannski villast hingað inn aðrar geimverur frá sömu plánetu.

AlienG


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband